Upplifunarsýning í miðbæ Selfoss

Skyrland er nýr áfangastaður í miðbæ Selfoss sem fjallar um matarmenningu Íslands, með sérstaka áherslu á þjóðarréttinn skyr. Skyrland er upplifun sem reynir á öll skilningarvitin og kemur skemmtilega á óvart.

Hin hliðin á skyrinu

Ólíkt öðrum gömlum þjóðarréttum okkar Íslendinga þá hefur skyrið öðlast nýtt líf í nútímanum og er nú í boði á milljónamörkuðum víða um heim. Skyrið okkar á sér einstaka sögu og við viljum deila henni með þér.

Mjólkin - lífsins vökvi

Þú ferð inn í listaverkið Auðhumlu og heilsar upp á aðrar goðsagnakenndar kýr sem eru taldar heilagar og birtast í sköpunarsögum margra þjóða.

Torfbærinn – ríki kvenna

Sjáðu hvernig lifnaðarhættir Íslendinga voru í gömlu torfbæjunum, í handsmíðuðu módeli sem er á skalanum 1:50.

Sumarilmur í kassa

Íslensku sumrin eru stutt en gefa orkuna sem býr í hverri skeið af skyri. Hér stígurðu inn í kassa sem er töfrum líkastur og færð bókstaflega yfir þig ilminn af sumrinu.

Grúskaraveggirnir

Magnaðar ljósmyndir og fjöldi sjaldséðra muna á veggjum sýningarinnar varpa áhugaverðu ljósi á söguna.

Ísey skyr bar

Við hliðina á Skyrlandi finnur þú Ísey skyr bar þar sem þú getur dekrað við þig með ljúffengri skyrskál eða góðu boozti. Kíktu við.

Gamla mjólkurbúið

Skyrland er í Gamla Mjólkurbúinu í nýja miðbænum á Selfossi.

  • Mathöll með 8 veitingastöðum
  • Handverksbjórar á krana
  • Vín- og kokteilbar